Samþykkt á Aðalfundi 29.apríl 2021

1.gr. Nafn félagsins og tilgangur

Félagið heitir Byggingarfræðingafélag Íslands, skammstafað BFÍ. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2.gr. Markmið félagsins

Markmið félagsins er að:

  1. Vera öflugur málsvari félagsmanna, fylgjast með og taka þátt í umræðu um byggingarfræðileg málefni.
  2. Gæta hagsmuna og réttinda félagsmanna og stuðla að gæðum í kjörum og starfsumhverfi.
  3. Standa vörð um starfsheitin og gæði byggingarfræðimenntunar.
  4. Stuðla að tækniþróun með samfélagslega ábyrgð svo og hagsmuni almennings og umhverfis að leiðarljósi.
  5. Vera vettvangur samskipta félagsmanna inn á við og talsmaður þeirra út á við.

3.gr. Leiðir að markmiðum

Félagið vinnur að markmiðum sínum með því að:

  1. Efla ímynd félags og stéttar í samfélaginu meðal annars með virkri þátttöku í þjóðfélagsumræðu.
  2. Vera lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör þeirra félagsmanna sem tilheyra Kjaradeild félagsins.
  3. Halda góðum tengslum við menntastofnanir og stuðla að endur- og símenntun félagsmanna.
  4. Veita einstaklingsbundna þjónustu og starfrækja upplýsingaveitu um kjaramál í víðum skilningi.
  5. Halda uppi öflugu félagsstarfi og eiga gott samstarf við opinbera aðila og önnur hagsmuna- og fagfélög.
  6. Vera bakhjarl félagsmanna sem mótandi afl í þróun samfélagsins á sviði tækni, vísinda og atvinnuuppbyggingar.
  7. Hafa jafnrétti að leiðarljósi í starfi sínu og ávallt gæta þess að skipan nefnda og stjórna félagsins endurspegli samsetningu félagsmanna hvað varðar kyn og menntun.


4.gr. Skilyrði um félagsaðild

Félagar í  geta orðið:

  1. Félagsmenn geta þeir einir orðið er lokið hafa prófi í byggingafræði frá skólum sem félagið viðurkennir og hafa hlotið löggildingu starfsheitisins byggingafræðingur.
  2. Jafnframt geta nemar í byggingafræði sem stunda nám við skóla sem félagið viðurkennir, gerst aukafélagar með málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt. Aukafélagar greiða ekki félagsgjöld

5.gr. Heiðursfélagar

Stjórn BFÍ er heimilt að heiðra þann einstakling sem með framlagi sínu hefur eflt félagið og/eða byggingafæðingastéttina eða á að baki farsælan starfsferil sem byggingafræðingur. Til kjörs heiðursfélaga þarf samhljóða atkvæði allra stjórnarmanna. Stjórn félagsins getur veitt heiðursmerki í viðurkenningarskyni fyrir vel unnin störf í þágu félagsins. Stjórn BFÍ skal leggja fram rökstuðning á vali heiðursfélaga.

6.gr. Innganga

Beiðni um inngöngu í félagið skal send stjórn félagsins. Í inngöngubeiðni skal tekið fram hvort umsækjandi óski eftir aðild að Kjaradeild félagsins. Stjórn fær til umsagnar allar umsóknir um inngöngu í félagið og metur þær samkvæmt þeim reglum sem stjórnin hefur samþykkt um meðferð umsókna, þar sem m.a. skal kveðið á um lágmarkskröfur sem gera skal til menntunar nýrra félagsmanna. Ef umsögn Stjórnar er jákvæð ber stjórninni að veita umsækjanda aðild að félaginu. Ef umsögn er neikvæð getur stjórnin ekki veitt viðkomandi aðild að félaginu, nema í undantekningartilvikum, t.d. ef viðkomandi getur ekki aflað tilskilinna gagna vegna styrjalda eða af stjórnmálalegum ástæðum. Í slíkum tilvikum þarf stjórnin að samþykkja inngöngu samhljóða.

7.gr. Úrsögn

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og send félagsstjórn. Úrsögn tekur gildi 4 mánuðum eftir að hún berst félaginu. Eigi Kjaradeild félagsins í kjaradeilum  getur stjórn félagsins framlengt úrsagnarfrest þennan uns deilu lýkur tilheyri félagsmaður Kjaradeild.

8.gr. Réttindi og skyldur

Atkvæðisrétt um öll félagsleg málefni eiga almennir félagar, enda séu þeir skuldlausir við félagið, svo og heiðursfélagar, nema á annan veg sé mælt í lögum þessum.

Almennir félagar eru kjörgengir til stjórnarkjörs í félaginu enda uppfylli þeir einnig skilyrði 11. gr. Almennir félagar eiga rétt á að kenna sig við félagið og nota skammstöfun félagsins með nafni sínu.

Allir félagsmenn eiga rétt á aðild að einni eða fleiri deildum félagsins með þeim takmörkunum sem reglur þeirra segja til um, sjá 12., 13. gr. og 14. gr.

Félagsmönnum er skylt að fara eftir lögum félagsins, siðareglum og öðrum samþykktum þess við störf sín. Félagsmenn skulu jafnframt greiða félagsgjald eins og það er ákveðið hverju sinni á aðalfundi.

9.gr. Málskot og brottvikning

Ágreiningi, sem rísa kann á milli einstakra félagsmanna annars vegar og félagsstjórnar hins vegar um rétt eða skyldur félagsmanna gagnvart félaginu, má vísa til félagsfundar og er niðurstaða hans endanleg.

Komi félagsmaður fram á þann hátt að ekki samræmist tilgangi félagsins, hag eða heiðri getur stjórn lagt til að honum verði vikið úr félaginu. Endanlega ákvörðun um brottrekstur tekur félagsfundur og þarf 2/3 atkvæða á félagsfundi þar sem slíkt mál er til meðferðar samkvæmt fundarboði.

Áður en til atkvæðagreiðslu kemur skal félagsmanni gefinn kostur á að koma á framfæri skriflegum sjónarmiðum við stjórn félagsins. Brottvikningu er eingöngu beitt ef sakir eru miklar eða brot ítrekuð.

10.gr. Skipulag

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Starfsemi félagsins milli aðalfunda er í höndum stjórnar undir forystu formanns.

Almennir félagsmenn, sbr. 4. grein, tilheyra annað hvort Kjaradeild sbr. 12 gr. eða Deild stjórnenda og sjálfstætt starfandi sbr.13. gr. Aðrar deildir og fastanefndir starfa innan félagsins að sérstökum málefnum.

11.gr. Stjórn

Stjórn stýrir málefnum félagsins milli félags- og aðalfunda. Stjórnin sér til þess að skipulag og starfsemi félagsins sé jafnan í réttu og góðu horfi og í samræmi við lög félagsins. Stjórn skal jafnframt annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna sem eru á ábyrgð félagsins. Stjórn tekur allar meiriháttar ákvarðanir sem snúa að fjármálum félagsins. Stjórn fylgist með störfum deilda sem eru eða kunna að verða starfræktar. Stjórn er heimilt að ráða framkvæmdastjóra og fela honum daglegan rekstur félagsins.

Í stjórn sitja:

  1. Formaður kosinn á aðalfundi til tveggja ára í senn.
  2. Einungis stjórnarmenn sem starfað hafa 2 ár eða lengur geta orðið formenn.
  3. Tveir meðstjórnendur, sem eru kosnir á aðalfundi til tveggja ára, sinn meðstjórnarmaðurinn annað hvert ár.
  1. Tveir meðstjórnendur, formaður Kjaradeildar og formaður Deildar stjórnenda og sjálfstætt starfandi hverju sinni. Við forföll tekur varaformaður sæti síns formanns en annars varamaður.
  1. Tveir varamenn, kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn, sinn varamaðurinn annað hvert ár. Eru þeir varamenn allra stjórnarmanna.
  2. Stjórn félagsins skal halda skrá yfir fjölda þeirra sem hlotið hafa löggildingu starfsheitis á starfsárinu og koma upplýsingum á framfæri í skýrslu stjórnar á aðalfundi.

Kosning stjórnarmanna fer fram á aðalfundi. Aðeins félagsmenn viðkomandi deilda njóta kosningaréttar að því er varðar meðstjórnendur skv. 3. tl., sbr. 12. og 13. gr.   Formaður er kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Stjórnin setur sér starfsreglur í samræmi við lög þessi og skulu þær vera aðgengilegar félagsmönnum.

Stjórnin heldur fundi þegar formaður ákveður eða einhver stjórnarmanna óskar. Formaður stýrir fundum.

Stjórn skal standa vörð um menntun byggingarfræðinga og fylgjast með því námi sem í boði er hér á landi á því sviði. Stjórn skal hafa umsjón með samskiptum félagsins til ráðuneytis um menntamál. Hún skal hafa frumkvæði að því hvernig félagið getur beitt áhrifum sínum gagnvart yfirvöldum menntamála í því skyni að ná markmiðum félagsins. Stjórn skal semja reglur um þær menntunarkröfur sem krafist er til inngöngu í félagið. Þessar reglur skulu hljóta staðfestingu stjórnar og skulu síðan gefnar út. Aðeins þeir sem hafa leyfi ráðherra til þess að kalla sig byggingarfræðing eru gjaldgengir til setu í Stjórn. Stjórn metur allar umsóknir um inngöngu í félagið sbr. 6. gr.

12.gr. Kjaradeild

Kjaradeild er deild launþega innan BFÍ. Þeir félagsmenn einir, sem eru launþegar á grundvelli laga nr. 80/1938 ásamt síðari breytingum um stéttarfélög og vinnudeilur eða laga  nr. 94/1986 ásamt síðari breytingum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, geta átt aðild að Kjaradeild. Aðeins þeir sem tilheyra deildinni eru kjörgengir og hafa atkvæðisrétt í kosningu til stjórnar deildarinnar.

Stjórn Kjaradeildar er skipuð fimm félagsmönnum, sem kosnir eru í almennri bréflegri eða rafrænni kosningu fyrir aðalfund til tveggja ára í senn, þrír annað árið en tveir hitt árið. Varamenn í stjórn Kjaradeildar eru tveir kosnir til tveggja ára í senn, annar kosinn annað árið, hinn kosinn hitt árið. Formaður er kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum og setur sér starfsreglur sem stjórn BFÍ staðfestir.  Formaður stjórnar Kjaradeildar skal sitja í stjórn BFÍ, sbr. 3. tl. 11. gr. Stjórn Kjaradeildar skal a.m.k. tvisvar á ári, halda stjórn BFÍ upplýstri um þau málefni deildarinnar sem máli kunna að skipta fyrir félagið, þ.m.t. um úthlutunarreglur, ávöxtunarleiðir og uppgjör sjóða. Samfelld seta í stjórn Kjaradeildar getur mest verið 6 ár. Stjórnarmenn skulu uppfylla hæfisskilyrði 11. gr.

Hlutverk stjórnar Kjaradeildar er að:

  1. Annast gerð kjarasamninga og skipa samninganefndir eftir þörfum.
  2. Setja reglur fyrir sjóði sem samið er um í kjarasamningum.
  3. Skipa stjórnir fyrir sjóði sem samið er um í kjarasamningum.
  4. Hafa umsjón með og sinna málefnum félagsmanna Kjaradeildar BFÍ.
  5. Halda stjórn BFÍ upplýstri um fjárhagsstöðu þeirra sjóða sem henni tilheyra.
  6. Annast allsherjaratkvæðagreiðslur, sjá 22. gr.
  7. Hafa samráð um ráðningu yfirmanns kjarasviðs.

Að því leyti sem ekki er mælt á annan veg í lögum þessum hefur Kjaradeild sjálfstæði um þau málefni sem um er fjallað í 12. gr.

13.gr. Deild stjórnenda og sjálfstætt starfandi

Deild stjórnenda og sjálfstætt starfandi hefur umsjón með og sinnir málefnum stjórnenda og sjálfstætt starfandi félagsmanna innan BFÍ, svo og annarra sem kjósa að standa utan Kjaradeildar.

Meginverkefni deildarinnar er að stuðla að virkri samfélagsumræðu um málefni á áhugasviði félagsmanna meðal annars með því að standa fyrir opnum fundum.

Aðeins þeir sem tilheyra deildinni eru kjörgengir og hafa atkvæðisrétt í kosningu til stjórnar deildarinnar.

Stjórn Deildar stjórnenda og sjálfstætt starfandi er skipuð þremur félagsmönnum, sem kosnir eru í almennri bréflegri eða rafrænni kosningu fyrir aðalfund til tveggja ára í senn, tveir annað árið en einn hitt árið. Einn varamann skal kjósa í stjórn Deildar stjórnenda og sjálfstætt starfandi til eins árs. Formaður er kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum og setur sér starfsreglur sem stjórn BFÍ staðfestir. Formaður stjórnar Deildar stjórnenda og sjálfstætt starfandi skal sitja í stjórn BFÍ, sbr. 3. tl. 11. gr. Stjórn deildarinnar skal halda stjórn BFÍ upplýstri um önnur málefni sem kunna að hafa þýðingu fyrir félagið.

14.gr. Aðrar deildir

Innan vébanda félagsins geta starfað aðrar deildir, svo sem sérgreinadeildir og landshlutadeildir. Sérgreinadeildir félagsmanna fjalla um málefni hinna ýmsu byggingarfræðigreina. Landshlutadeildir eru samtök félagsmanna, búsettra í einstökum landshlutum. Sérgreindadeildir, landshlutadeildir og aðrar deildir skv. þessari grein mega ekki koma fram opinberlega í nafni félagsins nema með samþykki stjórnar. Stofnun þessara deilda þarf samþykki stjórnar. Deildir skulu setja sér starfsreglur  sem stjórn BFÍ staðfestir.  Fyrir lok hvers starfsárs skulu þessar deildir gefa stjórn skýrslu um starfsemi ásamt áætlunum um verkefni og fjárþörf þeirra fyrir næsta starfsár.

15.gr. Fastanefndir

Stjórn félagins er heimilt að skipa fastanefndir svo sem Siðanefnd og Útgáfunefnd.
Fastanefndir skulu skipaðar af stjórn til tveggja ára í senn og skal leitast við að þær endurspegli vilja og hugmyndir félagsmanna. Fastanefndir skulu standa stjórn skil á starfsemi sinni. Fyrir lok hvers starfsárs skulu fastanefndir gefa stjórn skýrslu um starfsemi ásamt áætlunum um verkefni og fjárþörf nefndanna fyrir næsta starfsár.

19.gr. Aðalfundur

Aðalfundur skal haldinn fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Aðalfund og aukaaðalfund skal boða bréflega eða rafrænt til allra félagsmanna með minnst 14 daga fyrirvara. Dagskrá fundarins skal tilkynnt í fundarboði, svo og allar tillögur sem þurfa samþykki aðalfundar samkvæmt félagslögum. Slíkar tillögur frá félagsmönnum skulu hafa borist stjórninni 14 dögum fyrir boðaðan aðalflund. Verði á aðalfundi verulegar efnisbreytingar á áður kynntum tillögum skal afgreiðslu þeirra frestað og boðað til aukaaðalfundar eða allsherjaratkvæðagreiðslu.

Stjórn tilkynnir félagsmönnum, eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund, hverjir ganga úr stjórnum á næsta aðalfundi og auglýsir eftir tillögum félagsmanna um stjórnarmenn í aðalstjórn og stjórnir Kjaradeildar og Deildar stjórnenda og sjálfstætt starfandi. Tillögur félagsmanna skulu vera skriflegar og hafa borist stjórninni fyrir 7 dögum fyrir aðalfund. Að þeim fresti liðnum skal kynna formannsefnum uppástungur sem borist hafa. Eigi síðar en með aðalfundarboði sendir stjórnin félagsmönnum nöfn allra þeirra, sem stungið hefur verið upp á.

Aðalfundur og aukaaðalfundur eru löglegir, sé löglega til þeirra boðað. Skýrsla stjórnar skal liggja frammi á aðalfundi.

Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál, í þessari röð:

  1. Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu ári
  2. Reikningar félagsins, þ.m.t. reikninga deilda og sjóða félagsins, fyrir undanfarandi starfsár lagðir fram til samþykkis
  3. Fjárhagsáætlun og ákvörðun félagsgjalda
  4. Tillögur félagsstjórnar
  5. Lýst kosningu stjórnar
  6. Kjör endurskoðanda og skoðunarmanns
  7. Lýst kosningu í stjórn Kjaradeildar félagsins
  8. Lýst kosningu í stjórn Deildar stjórnenda og sjálfstætt starfandi
  9. Laun formanns og stjórnarmanna
  10. Laga-og reglugerðarbreytingar
  11. Önnur mál

20.gr. Aukaaðalfundur

Aukaaðalfund skal kalla saman þegar stjórninni þykir ástæða til eða þegar 100 félagsmenn eða fleiri óska þess skriflega.

21.gr. Félagsfundir

Félagsfundi skal boða þegar stjórn ákveður. Stjórnin ákveður fundarefni og fundartíma. Stjórn er skylt að boða til félagsfundar komi fram skrifleg krafa um það, þar sem fundarefni er tilgreint, frá a.m.k. 200 félagsmönnum. Félagsfundum stýrir kjörinn fundarstjóri. Hann tilnefnir ritara. Fundargerðir skal bóka.

22.gr. Allsherjaratkvæðagreiðsla

Stjórn félagsins getur látið fara fram allsherjaratkvæðagreiðslu þegar henni þykir ástæða til eða a.m.k. 100 félagsmenn óska þess skriflega. Með allsherjaratkvæðagreiðslu má taka ákvörðun um öll þau mál, sem aðalfundir einir geta annars tekið ákvörðun um. Til samþykktar tillögu við slíka atkvæðagreiðslu þarf meira en helming greiddra atkvæða, nema um lagabreytingar, en þar þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða. Allsherjaratkvæðagreiðsla fer fram bréflega eða með rafrænum hætti. Öllum félagsmönnum skal senda kjörgögn og þær tillögur, er greiða skal atkvæði um og tilkynna skilafrest á atkvæðaseðlum. Frestur þessi skal ekki vera skemmri en 2 vikur. Atkvæðaseðlar skulu sendir í pósthólf eða á póstfang félagsins, og skal pósthólfsnúmer og tölvupóstfang fylgja kjörgögnum. Þegar skilafrestur er útrunninn, skal stjórnin láta telja atkvæðin. Stjórn félagsins skal birta úrslit allsherjaratkvæðagreiðslu bréflega eða með rafrænum hætti.

Stjórn Kjaradeildar getur látið fara fram allsherjaratkvæðagreiðslu um boðun verkfalls með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr., enda sé gætt ákvæða 15. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 eða 15. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 eftir því sem við á. Einnig getur stjórn Kjaradeildar látið fara fram allsherjaratkvæðagreiðslu um afgreiðslu kjarasamninga, enda sé gætt ákvæða 5. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 eða 23. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 eftir því sem við á. Við allsherjaratkvæðagreiðslu á vegum Kjaradeildar eru þeir einir atkvæðisbærir sem eiga beina aðild að viðkomandi deilu.

23.gr. Félagsgjöld

Aðalfundur ákveður almennt félagsgjald fyrir næsta almanaksár.
Gjalddagi félagsgjalda er 1. apríl ár hvert. Heimilt er að greiða árgjald með jöfnum afborgunum að höfðu samráði við skrifstofu. Lendi félagsmaður í vanskilum með árgjald sitt er heimilt að láta hann bera innheimtukostnað auk vaxta.

Skuldi félagsmaður árgjöld tveggja ára getur stjórnin fellt nafn hans af félagaskrá að undangenginni skriflegri viðvörun. Félagsmaður öðlast félagsréttindi sín á ný þegar árgjaldaskuldin er að fullu greidd.

Félagar búsettir erlendis greiða ekki félagsgjald, félagar sem eru í fullu námi, heiðursfélagar og félagar eldri en 70 ára greiða ekki félagsgjöld.   Stjórn getur tekið ákvörðun um eftirgjöf hluta félagsgjalds.

25.gr. Reikningar og endurskoðun

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Reikningar félagsins skulu vera endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og félagslegum skoðunarmanni. Skulu reikningar samþykktir á aðalfundi.

26.gr. Sjóðir

Sjóðir sem samið er um í kjarasamningum skulu starfa samkvæmt reglugerðum sem samþykktar eru á aðalfundum. Í reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, tekjur hans, hvernig verja skuli fé sjóðsins, hvernig stjórn hans skuli háttað og annað er sjóðinn varðar. Reglugerðir sjóða og breytingar á þeim skulu bornar undir aðalfund BFÍ til samþykkis og fer um þær eins og lög félagsins, sbr. 28. gr..

Stjórn Kjaradeildar ber ábyrgð á, hefur eftirlit með og sér um ávöxtun sjóðanna. Stjórn Kjaradeildar skal, a.m.k. tvisvar á ári, halda stjórn félagsins upplýstri um stöðu sjóðanna og önnur málefni þeirra sem kunna að hafa þýðingu fyrir félagið, þ.m.t. um úthlutunarreglur, ávöxtunarleiðir og uppgjör sjóða. Réttindi félagsmanns til greiðslna úr sjóðum eru háð því hvort viðkomandi félagsmaður greiði til viðkomandi sjóða eða ekki.

Aðrir sjóðir félagsins eru í vörslu stjórnar félagsins og skal hún sjá um að þeir séu ávaxtaðir á tryggan hátt.

Stjórn félagsins skal tryggja daglegan rekstur sjóðanna eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem viðkomandi sjóðsstjórn hefur gefið.

Eignir sjóða skulu ávaxtaðar samkvæmt fjárfestingarstefnu sem samþykkt er af stjórn þeirrar deildar sem viðkomandi sjóður tilheyrir. Heimilt er að ávaxta eignir sjóða með eftirfarandi hætti;

  1. Með ávöxtun hjá bönkum og sparisjóðum.
  2. Með kaupum á ríkistryggðum verðbréfum eða skráðum skuldabréfum með sambærilegum tryggingum.
  3. Með kaupum í fasteignum tengdum starfsemi sjóðsins.
  4. Með öðrum þeim hætti sem stjórn viðkomandi sjóðs metur tryggan, að undangengu samþykki stjórnar þeirrar deildar sem sjóðurinn tilheyrir.

Stjórnir sjóða skulu ávallt gæta þess að viðkomandi sjóður geti staðið við skuldbindingar sínar og skulu á hverju ári leggja fyrir stjórn félagsins áætlanir um það efni, sem skulu ná til næstu fimm ára. Áætlanirnar skulu taka mið af stærð sjóðsins, úthlutunarreglum, fjárfestingarstefnu og mögulegum framtíðarskuldbindingum.

Fimmta hvert ár að minnsta kosti skal stjórn hvers sjóðs fá óháðan tryggingafræðing til þess að meta framtíðarstöðu sjóðsins og hvort sjóðurinn getur staðið við skuldbindingar sínar. Einnig er sjóðsstjórn skuldbundin til að leggja í slíkt mat við allar meiriháttar breytingar á reglugerð. Mat þetta skal lagt fyrir stjórn þeirra deildar sem sjóður tilheyrir.

Reikningsár sjóða samkvæmt þessari grein er almanaksárið. Reikningar sjóða skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og félagslegum skoðunarmanni. Skulu reikningar sjóða samþykktir á aðalfundi.

28.gr. Lagabreytingar

Breytingar á lögum þessum má eingöngu gera á aðalfundi eða með allsherjaratkvæðagreiðslu. Tillögur um lagabreytingar, sem leggja á fyrir aðalfund skulu birtar í fundarboði. Til lagabreytinga sem bornar eru undir aðalfund þarf 2/3 greiddra atkvæða. Sama gildir í allsherjaratkvæðagreiðslu. Ef innan við 10% félagsmanna taka þátt í atkvæðagreiðslu á aðalfundi um grundvallarbreytingu á BFÍ, svo sem sameiningu við önnur félög, reglur um félagsaðild eða mikilvægar ákvarðanir um fjármál BFÍ, eða sjóða þess, öðlast slík ályktun ekki gildi, nema hún verði samþykkt með 2/3 greiddra atkvæða á næsta aðalfundi. Eigi má selja eða veðsetja eignir í eigu félagsins án samþykkis aðalfundar og þarf 2/3 greiddra atkvæða. Stjórn getur látið fara fram allsherjaratkvæðagreiðslu ef að mati hennar er óheppilegt að bíða með að fá lagabreytinguna afgreidda. Lagabreytingar skulu birtar félagsmönnum.

29.gr. Félagsslit

Félaginu verður því aðeins slitið að félagsslitin séu samþykkt á sama hátt og gildir um lagabreytingar. Félagsfundur tekur ákvörðun um ráðstöfun eigna félagsins við þær aðstæður.

Svona samþykkt af samstarfsnefnd SFB og BFÍ .

Þessi vefsíða notar vefkökur (cookies) til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vefkökur.