Að námi loknu
Starfsvettvangur byggingafræðinga
Byggingafræðingar vinna fjölbreytt störf tengd byggingariðnaði. Þeir starfa meðal annars við hönnun mannvirkja, eftirlit og framkvæmdastýringu. Þekking þeirra úr námi nýtist vel í öllu byggingarferlinu, við efnisval og svo mætti lengi telja.
Eftir útskrift úr náminu bíður byggingafræðingum fjölbreyttur og spennandi starfsvettvangur. Byggingafræðingar starfa margir hjá teiknistofum og verkfræðistofum, hjá verktakafyrirtækjum sem verkefnastjórar eða byggingarstjórar. Byggingafræðingar starfa einnig hjá fasteignafélögum, tryggingafélögum og hjá innlendum framleiðendum. Þá starfa margir byggingafræðingar við sölu og efnisöflun. Eins geta byggingafræðingar starfað hjá hinu opinbera, sem byggingafulltrúar eða við hin ýmsu störf.
Byggingafræðingar geta öðlast réttindi sem löggiltir hönnuðir að uppfylltum skilyrðum og að undangengnum þriggja ára starfstíma, námskeiði og prófi á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þeir geta þá starfað sjálfstætt sem hönnuðir með réttindi til að skila inn aðaluppdráttum, uppdráttum að skipulagi lóða og tilheyrandi séruppdráttum.
Löggilt starfsheiti
Með því að ljúka BSc-gráðu í byggingafræði getur nemandi sótt um að hljóta löggilt starfsheiti sem byggingafræðingur.
Enskt heiti BSc-gráðu í byggingafræði kallast Bachelor of Architectural Technology and Construction management.