Lög Byggingafræðingafélags Íslands
Samþykkt á aðalfundi 14. apríl 2016
- grein (nafn, staðsetning)
Félagið heitir Byggingafræðingafélag Íslands, skammstafað BFÍ. Það hefur aðsetur í Reykjavík.
- grein (markmið)
Markmið BFÍ er að efla og bæta allt er snýr að mannvirkjagerð og umhverfi þeirra. Félagið er fyrst og fremst hagsmunafélag og er því ætlað að gæta hagsmuna byggingafræðinga, efla samstarf þeirra, kynna starfsstéttina út á við og stuðla að aukinni fræðslu félagsmanna.
- grein (gjaldgengir félagar, skilyrði)
Félagsmenn geta þeir einir orðið er lokið hafa prófi í byggingafræði frá skólum sem félagið viðurkennir og hafa hlotið löggildingu starfsheitisins byggingafræðingur.
Jafnframt geta nemar í byggingafræði sem stunda nám við skóla sem félagið viðurkennir, gerst aukafélagar með málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt. Aukafélagar greiða ekki félagsgjöld.
- grein (viðurkenndir skólar)
Viðurkenning á skóla fer fram á stjórnarfundi. Að undangenginni ítarlegri athugun skal hún kynnt á félagsfundi og hljóta þar samþykki meirihluta félagsmanna á fundinum.
- grein (félagsgjöld)
5.1 Félagsgjöld eru ákvörðuð á aðalfundi.
5.2 Undanþegnir greiðslu félagsgjalda eru stjórnarmeðlimir og varamenn, félagar sem náð hafa 67 ára aldri, félagar á fyrsta ári og aukafélagar (sbr. 3. gr).
5.3 Allir byggingafræðingar á skrá hjá félaginu, að þeim undanskildum sem getið er í 5.2, fá senda greiðsluseðila vegna innheimtu félagsgjalda. Sitjandi félagsstjórn ákvarðar hvernig greiðslum er háttað hverju sinni.
5.4 Þeir sem greiða árgjald hvers árs teljast félagsmenn með atkvæðisrétt.
- grein (að kenna sig við BFÍ)
Félagsmenn, sem greitt hafa árgjald, hafa einir rétt til að kenna sig við félagið og nota skammstöfunina BFÍ með nafni sínu.
- grein (félagsstjórn)
7.1 Félagsmaður skal samþykktur með kosningu til að fá sæti í stjórn félagsins.
7.2 Félagsstjórn er skipuð fimm aðilum, formanni og fjórum meðstjórnendum. Auk þeirra eru skipaðir tveir varamenn. Stjórnin kýs varaformann úr sínum hópi og skiptir með sér verkum. Forfallist formaður á kjörtímabilinu, skal varaformaður taka sæti hans. Varamenn skulu boðaðir á alla stjórnarfundi og hafa þeir tillögurétt.
7.3 Í hverri stjórn skulu sitja minnst tveir aðalstjórnarmeðlimir fráfarandi stjórnar.
7.4 Aðilar stjórnar eru kosnir til eins starfsárs í senn. Kosning skal vera skrifleg ef um mótframboð er að ræða.
- grein (endurskoðendur)
Endurskoðendur eru tveir og einn til vara. Þeir skulu kjörnir á aðalfundi til eins árs í senn. Við kjör stjórnar og endurskoðenda geta félagar, sem ekki geta sótt fund, sent skrifleg atkvæði sín undirrituð og vottfest.
- grein (störf og skyldur stjórnar)
9.1 Stjórn félagsins hefur umboð til að skipa vinnuhópa til sérverkefna.
9.2 Stjórn félagsins skal halda skrá yfir félagsmenn annars vegar og hins vegar yfir alla byggingafræðinga á Íslandi með eftirfarandi upplýsingum: nafni, kennitölu, heimilisfangi, síma og netfangi.
9.3 Stjórn félagsins skal halda skrá yfir fjölda þeirra sem hlotið hafa löggildingu starfsheitis á starfsárinu og koma upplýsingum á framfæri í skýrslu stjórnar á aðalfundi.
9.4 Stjórn félagsins er heimilt að ráða framkvæmdastjóra, setja honum starfsreglur og veita honum prókúru, leyfi fjárhagur félagsins það.
9.5 Stjórninni er heimilt að taka á leigu húsnæði fyrir starfsemi félagsins, leyfi fjárhagur félagsins það.
- grein (sérdeildir)
10.1 Heimilt er að stofna innan félagsins sérdeildir, sem fjalla um:
- a)Hagsmunamál félagsmanna.
- b)Sérmál félagsmanna.
10.2 Lagaákvæði sérdeilda og breytingar á þeim skulu hljóta samþykki aðalfundar BFÍ á sama hátt og lög BFÍ. Allar þær samþykktir sem áhrif geta haft á aðra félagsmenn skal bera undir stjórn BFÍ.
10.3 Félagsdeildir mega ekki koma fram opinberlega, án samþykkis stjórnar BFÍ.
10.4 Félagsdeildir geta, með samþykki stjórnar, haft sjálfstæðan fjárhag.
- grein (útgáfa)
Félaginu er heimilt að gefa út ársskýrslur, tímarit og annað þess háttar. Stjórn félagsins er heimilt að afhenda þessi gögn félagsmönnum að kostnaðarlausu.
- grein (sjóðir)
Allir sjóðir skulu vera í vörslu stjórnarinnar og skal hún sjá um að ávaxta þá á tryggan hátt. Um sérsjóði félagsins skulu samdar reglur og skal fjallað um þær eins og lög félagsins.
- grein (félagsfundir)
13.1 Félagsfundi skal halda, þegar stjórnin telur þurfa, eða þegar fimmtungur félagsmanna krefst þess skriflega. Boði stjórn ekki slíkan fund innan viku frá því að henni hefur borist krafan, geta þeir sem fundar óska, sjálfir boðað til hans í nafni félagsins.
13.2 Boða þarf til félagsfundar með minnst viku fyrirvara. Fundarboð skal sent til félagsmanna á tölvupósti og jafnframt birt á heimasíðu félagsins og á samskiptamiðlum. Fundur telst löglegur sé rétt boðað til hans.
- grein (aðalfundur)
14.1 Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málum félagsins. Afl atkvæða ræður úrslitum.
14.2 Aðalfund skal halda árlega, fyrir 1. maí.
14.3 Boða þarf til aðalfundar með minnst viku fyrirvara. Aðalfundarboð skal sent til félagsmanna á tölvupósti og jafnframt birt á heimasíðu félagsins og á samskiptamiðlum. Aðalfundur er aðeins löglegur sé rétt til hans boðað.
14.4 Á aðalfundi skulu tekin fyrir eftirfarandi mál:
- Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu ári.
- Reikningsskil.
- Skýrslur og tillögur þeirra vinnuhópa, er starfað hafa.
- Tillögur félagsstjórnar.
- Kjör félagsstjórnar.
- Kjör endurskoðenda.
- Ákvörðun félagsgjalda.
- Önnur mál.
14.5 Til breytinga á lögum félagsins þarf samþykki 2 / 3 atkvæðabærra félaga sem fundinn sækja. Ef lagabreytinga er óskað á aðalfundi, skal þess getið í fundarboði. Gildandi lagaákvæði og tillögur að breytingum þeirra skulu fylgja fundarboði.
14.6 Aðalfundi stýrir kjörinn fundarstjóri, hann tilnefnir ritara. Fundargerðina skal bóka. Fundargerð síðasta aðalfundar skal liggja frammi á aðalfundi. Formaður stýrir öðrum fundum. Þó skal formanni heimilt að tilnefna mann í sinn stað, ef hann óskar þess.
- grein (félagsslit)
Félaginu verður aðeins slitið, séu félagsslitin samþykkt á sama hátt og gildir um lagabreytingar. Félagsfundur tekur ákvörðun um ráðstöfun eigna félagsins.
- grein (gildi laga)
Lög þessi öðlast þegar gildi og þar með falla úr gildi lög félagsins frá apríl 1971.
–
- Heildarendurskoðun laga, samþykkt á aðalfundi BFÍ, 14. apríl 2016.
- Breyting á 3. gr. var samþykkt á aðalfundi BFÍ 10. apríl 2014.
Einnig var samþykkt að fella úr gildi 5. gr. með tilfallandi breytingum á númerum lagagreina.
- Breyting á 8. gr. var samþykkt á aðalfundi BFÍ 13. apríl 2013
- Breytingar á 3. 5. 6. 8. 9. 13. 15. 17. og 23. grein voru samþykktar á aðalfundi BFÍ 29. apríl 2009
- Breyting á 7. gr. var samþykkt á aðalfundi BFÍ 24. apríl 2004
- Breyting á 3. gr. var samþykkt á aðalfundi BFÍ 15. apríl 2000
- Breytingar á 5. gr. og 6. gr. voru samþykktar á aðalfundi BFÍ 17. apríl 1999
Siðareglur
Reglur um mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig byggingafræðing
1. gr.
Reglur þessar gilda um mat á umsóknum um leyfi til að nota starfsheitið byggingafræðingur. Byggingafræðingafélag Íslands er umsagnaraðili um hvort nám umsækjanda sé fullnaðarmenntun í byggingafræði.
2. gr.
Sækja skal um leyfi til að kalla sig byggingafræðing til þess ráðuneytis sem fer með lög um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, nr. 8/1996. Umsókninni skal fylgja staðfest yfirlit yfir námsferil (einkunnir) og frumrit af prófskírteinum eða staðfest ljósrit.
Ráðuneytið áframsendir umsóknir til umsagnar Byggingafræðingafélags Íslands. Séu fylgigögn ófullnægjandi eða umsókn að öðru leyti ábótavant skal fulltrúi stjórnar Byggingafræðingafélags Íslands upplýsa ráðuneytið um það hið fyrsta og útskýra hvaða gögn vanti svo gefa megi umsögn.
3. gr.
Eftirfarandi skilyrði þarf að uppfylla til að fá leyfi til að nota starfsheitið byggingafræðingur:
Lokið sé með prófgráðu námi við háskóla eða tækniháskóla sem stjórn Byggingafræðingafélags Íslands telur færa um að veita fullnægjandi menntun. Prófgráðan skal að námslengd og efnislegri samsetningu vera sambærileg BSc prófi í byggingafræði frá viðurkenndum háskóla á Íslandi og fullnægja eftirfarandi lágmarkskröfum:
a) | Undirstöðugreinar byggingafræði (125 ECTS einingar). | |
b) | Valnámsþættir og sérhæfðar ritgerðir (10-35 ECTS einingar). | |
c) | Starfsþjálfun (15-30 ECTS einingar). | |
d) | Lokaverkefni (20 ECTS einingar). |
Heildarlengd náms skal eigi vera styttri en þrjú og hálft ár og telja 210 ECTS einingar í heild.
Undirstöðugreinar byggingafræðináms snerta m.a. á eftirfarandi viðfangsefnum:
Samskipti, samstarf, aðferðafræði, upplýsingatækni.
Hagnýt eðlis- og efnafræði byggingarefna, burðarþol mannvirkja.
Landmælingar, jarðtækni.
Hönnun, viðgerðir og viðhald mannvirkja, brunaþol, hljóðvist, aðgengismál.
Hitunarfræði og lagnir, loftræsing, orkurammi bygginga.
Vistvæn hönnun og orkunýting.
Fyrirtækjarekstur, stjórnsýsla, lögfræði.
Framleiðsla, skipulag á byggingasvæði, verkefnisstjórnun, eftirlit.
Gerð tíma-, fjárhags- og rekstraráætlana, verksamningar, útboð byggingaverkefna.
Að námi loknu ætti viðkomandi að þekkja ferli hönnunar og framkvæmdar mannvirkja og geta skipulagt, stjórnað og sinnt verkefnum innan þess sviðs sjálfstætt og í samstarfi við aðra.
4. gr.
Framkvæmdastjóri Byggingafræðingafélags Íslands (eða annar kjörinn fulltrúi stjórnar) fer yfir umsóknir sem berast frá ráðuneytinu og sendir jákvæðar umsagnir til baka sýni fylgigögn með ótvíræðum hætti fram á að umsækjandi hafi lokið prófi í viðeigandi námi frá skóla sem félagið þekkir og viðurkennir. Eftirtaldir skólar og námstitlar eru meðal þeirra:
Land | Skóli | Námstitill | Námsgráða |
Ísland | Háskólinn í Reykjavík (HR) | Byggingafræði | BSc í byggingafræði |
Danmörk | Erhvervsakademi Sjælland (EASJ), Næstved
Københavns Erhvervsakademi (KEA), Kaupmannahöfn Erhvervsakademiet Lillebælt (EAL)‚ Óðinsvéum Erhvervsakademi SydVest (EASV), Esbjerg Erhvervsakademi Aarhus (EAAA), Árósum (sameinast VIA 2016) University College Nordjylland (UCN), Álaborg VIA University College (VIAUC), Horsens/Árósum/Holsterbro |
Bygningskonstruktør
Námstitill á ensku: |
Professionsbachelor i bygningskonstruktion
Námsgráða á ensku: |
Hafi umsækjandi lokið prófi, í námi eða frá skóla sem félagið þekkir ekki, er umsókn tekin sérstaklega fyrir á fundi stjórnar Byggingafræðingafélags Íslands og lagt hlutlaust mat á hana út frá þeim kröfum sem fram koma í reglum þessum.
Ef umsögn stjórnar Byggingafræðingafélags Íslands er jákvæð ber henni að mæla með því við ráðherra að umsækjandi fái leyfi ráðherra til að kalla sig byggingafræðing.
Ef umsögn stjórnar Byggingafræðingafélags Íslands er neikvæð ber henni að mæla gegn því að umsækjandi fái leyfi ráðherra til að kalla sig byggingafræðing. Telji stjórnin að synja beri umsækjanda um leyfi skal rökstyðja þá ákvörðun.
Framkvæmdastjóri Byggingafræðingafélags Íslands (eða annar kjörinn fulltrúi stjórnar) tilkynnir ráðuneytinu umsögn félagsins. Leitast skal við að svara erindum frá ráðuneytinu svo skjótt sem verða má og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að umsögn ásamt fullnægjandi fylgigögnum berst félaginu til umsagnar.
5. gr.
Reglur þessar voru samþykktar á aðalfundi Byggingafræðingafélags Íslands þann 30. apríl 2015.
6. gr.
Reglur þessar eru settar á grundvelli 3. gr. laga nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum og öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 8. maí 2015.
F. h. iðnaðar- og viðskiptaráðherra,
Kristján Skarphéðinsson.