LÖG

Stéttarfélags Byggingafræðinga

 

Nafn

1. gr.

Félagið heitir Stéttarfélag Byggingafræðinga, skammstafað SFB. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Starfssvæði félagsins nær yfir allt Ísland.

 

Tilgangur félagsins

2. gr.

Tilgangur félagsins er að efla hag félagsmanna sinna, meðal annars með því að aðstoða þá við ákvörðun launa og annarra kjara og styðja þá í hverjum þeim vinnudeilum sem upp kunna að koma.

Félagið kemur fram fyrir hönd félagsmanna sinna með fullum réttindum í samræmi við lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum.

 

3. gr.

Félagið er hagsmunafélag byggingafræðinga sem er meðlimir í SFB í stéttarfélagsmálum og hefur fullt forræði á sínum málum. Félagið vinnur að aukinni samstöðu félagsmanna um þau mál er varða fræðslu og þjálfun í starfi.

 

Félagar

4. gr.

Félagi getur hver sá orðið sem lokið hefur prófi í byggingafræði frá viðurkenndri menntastofnun sem félagið samþykkir. Félagar eiga rétt og bera skyldur samkvæmt samþykktum félagsins.

Stjórn félagsins getur veitt inngöngu í félagið hverjum þeim sem uppfyllir skilyrði í reglugerð sem stjórn og félagsfundur hefur samþykkt.

 

Félagsaðild

5. gr.

Beiðni um inntöku í félagið skal vera skrifleg. Hana skal senda stjórn félagsins sem ber að afgreiða hana á stjórnarfundi. Uppfylli umsækjandi skilyrði til að verða félagi skal hann samþykktur inn í félagið.

Sé umsækjandi samþykktur inn í félagið öðlast hann þegar þau réttindi sem félagsaðild veitir honum jafnframt því sem hann verður skuldbundinn við félagið samkvæmt lögum þess og samþykktum.

 

Úrsögn

6. gr.

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og send stjórn þess. Stjórn félagsins getur farið fram á að sá sem segir sig úr félaginu greiði gjaldfallin félagsgjöld.

Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst eða ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin af félaginu eða stjórn þess og þar til vinnustöðvuninni hefur verið formlega aflýst.

 

Brottvikning

7. gr.

Stjórn félagsins getur vikið úr félaginu hverjum þeim sem að hennar áliti brýtur lög félagsins, samninga þess við vinnuveitendur eða kemur fram á hvern þann hátt sem ekki samræmist tilgangi og hagsmunum félagsins eða hag og heiðri Byggingafræðingastéttarinnar. Ber stjórninni að leggja slíkar ákvarðanir fyrir næsta félagsfund til úrskurðar. Til samþykkis slíkra ákvarðana þarf 2/3 hluta atkvæða, hvort sem er á félagsfundi eða stjórnarfundi.

 

Skyldur félaga

8. gr

Félögum er skylt að fara eftir lögum félagsins og samþykktum. Jafnframt er sérhverjum félaga skylt að verða við kosningu til starfa í félaginu, nema gild forföll hamli, en getur neitað endurkjöri jafn langan tíma og hann hefur gegnt störfum.

 

Réttindi félaga

9. gr.

Félagsmenn hafa málfrelsi og tillögu- og atkvæðisrétt á félagsfundum svo og kjörgengi.

Sérhver félagi á rétt á leiðbeiningum og stuðningi félagsins í samskiptum sínum við vinnuveitanda sinn. á það jafnt við um ágreiningsmál, hvers konar samningagerð, ráðningarsamninga, eða annað það sem upp kann að koma.

Félagar eiga rétt á styrkjum úr sjóðum félagsins eftir því sem reglugerðir þeirra segja til um.

 

10. gr.

Ágreiningi sem rísa kann á milli einstakra félagsmanna annars vegar og stjórnar félagsins hins vegar má vísa til félagsfundar. Úrskurður félagsfundar er endanlegur og þarfnast einungis einfalds meirihluta, nema annað sé tiltekið í lögum þessum.

 

Félagsfundir

11. gr.

Félagsfundir skulu haldnir þegar stjórn félagsins telur tilefni til eða minnst 1/10 hluti félagsmanna óskar þess við stjórn félagsins með skriflegum hætti og tilgreinir fundarefnið.

Hverjum félagsfundi stýrir kjörinn fundarstjóri. Hann tilnefnir fundarritara. Fundargerðir skal bóka og bera upp til samþykktar í fundarlok, eða á næsta félagsfundi.

Stjórn félagsins getur boðið gestum á félagsfundi. Jafnframt getur sérhver félagsmaður boðið gestum á félagsfundi með leyfi formanns.

 

12. gr

Eigi félagið í deilum um laun félagsmanna eða önnur kjör þeirra, getur stjórn félagsins skipað sérstaka nefnd eða nefndir til að koma fram fyrir hönd félagsins.

 

Aðalfundur

13. gr.

Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald í öllum málum þess. Hann skal haldinn árlega á tímabilinu frá 15. mars til 15. maí og boðaður öllum félagsmönnum í fréttabréfi með 14 daga fyrirvara, svo og með auglýsingu í fjölmiðlum daginn fyrir fund.

Rétt boðaður aðalfundur er löglegur, án tillits til fundarsóknar. Dagskrá fundarins skal tilkynnt í fundarboði, svo og allar tillögur sem þurfa samþykki aðalfundar samkvæmt félagslögum. Slíkar tillögur skulu hafa borist stjórn félagsins 14 dögum fyrir fund.

Yfirfarnir og áritaðir reikningar félagsins skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins minnst tvo virka daga fyrir aðalfund 8 tíma hvorn dag. Í fundarboði aðalfundar skal tilgreina hvenær hægt er að skoða reikninga félagsins.

Skýrslur stjórnar og nefnda félagsins skulu liggja frammi á aðalfundi.

Dagskrá aðalfundar skal vera þannig:

1. Fundur settur.

2. Kosning fundarstjóra.

3. Skipun fundarritara.

4. Skýrsla stjórnar.

5. Skýrslur nefnda félagsins.

6. Umræður um skýrslur stjórnar og nefnda félagsins.

7. Reikningar félagins bornir upp.

8. Tillögur og lagabreytingar.

9. Kjör félagsstjórnar samkvæmt félagslögum.

10. Kjör skoðunarmanna ársreikninga.

11. Lýst stjórnarkjöri.

12. ákveðið árgjald ársins.

13. Önnur mál.

14. Fundi slitið.

 

14. gr.

Aukaaðalfund skal halda þegar stjórn félagsins telur þurfa eða þegar minnst einn tíundi (1/10) hluti félaga óska þess skriflega.

 

Atkvæðagreiðsla

15. gr.

Atkvæðagreiðsla á félagsfundi er alla jafna í formi handauppréttingar, en getur verið skrifleg.

Einn eða fleiri atkvæðisbærra fundarmanna geta krafist skriflegrar, leynilegrar atkvæðagreiðslu. Fundarstjóra ber að taka slíka kröfu til greina. Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða nægir til að tillaga teljist samþykkt, sé ekki öðruvísi kveðið á í lögum þessum.

Á fundi þar sem rætt er um kjaramál eru þeir einir atkvæðisbærir sem eru félagar og eiga beina aðild að viðkomandi máli. Um atkvæðagreiðslur um kjarasamninga skal fara að lögum nr. 80/1938 og eftir því sem við á, reglum almennt viðurkenndum á vinnumarkaði.

 

Allsherjaratkvæðagreiðsla

16. gr.

Stjórn félagsins skal láta fara fram allsherjaratkvæðagreiðslu, þegar henni þykir ástæða til eða þegar minnst einn tíundi (1/10) hluti félaga óska þess skriflega.

Sé fjallað um mikilsverð mál á félagsfundum getur 1/3 atkvæðisbærra fundarmanna krafist allsherjaratkvæðagreiðslu til úrskurðar þeirra.

Framkvæmd allsherjaratkvæðagreiðslu skal vera í höndum sérstakrar kjörnefndar. Hana skipa þrír menn. Skoðunarmenn reikninga félagsins skulu sitja í kjörnefnd auk eins manns sem stjórn félagsins skipar. Kjörnefnd skal sjá um að atkvæðaseðlar berist atkvæðisbærum félagsmönnum og sjá um talningu atkvæða.

Allsherjaratkvæðagreiðsla skal fara fram með eftirfarandi hætti:

Tillaga sú, er taka á ákvörðun um, skal send öllum atkvæðisbærum félagsmönnum ásamt atkvæðaseðli, er rita skal á já eða nei, leggja í umslag, loka því og leggja það í annað umslag, er beri með sér frá hverjum atkvæðið er.

Atkvæðið skal berast kjörstjórn innan tveggja vikna frá póstlagningu atkvæðaseðla á þann stað er hún tilgreinir í þeim gögnum sem kjósendur fá í hendurnar .

Áður en atkvæði eru talin, skal setja innri umslögin í kassa, blanda þeim síðan saman og telja.

Við atkvæðagreiðslu vegna kjarasamninga skal fara eftir ákvæðum laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum, og starfsreglum sem aðilar vinnumarkaðarins hafa komið sér saman um eins og við á í hverju tilviki.

Við leynilega póstatkvæðagreiðslu vegna kjarasamninga skal fara eftir starfsreglum ASÍ um slíkar atkvæðagreiðslur.

Úrslit allsherjaratkvæðagreiðslu skulu birt öllum félagsmönnum.

 

Félagsgjöld

17. gr.

Félagsgjaldinu skal skipt milli félagssjóðs og vinnudeilusjóðs. Aðalfundur ákveður upphæð þess og hlutfall vinnudeilusjóðs hverju sinni að fengnum tillögum stjórnar. Stjórn félagsins ákveður gjalddaga félagsgjalds.

Séu félagsgjöld ekki greidd á gjalddaga er stjórn félagsins heimilt að bæta við dráttarvöxtum svo og aukalegum innheimtukostnaði er af vanskilum leiðir. Skuldi félagsmaður árgjald tveggja ára er félagsstjórn heimilt að víkja honum úr félaginu að undangenginni skriflegri viðvörun.

Félagar sem eru atvinnulausir, ellilífeyrisþegar, sjúkir, án tekna tímabundið eða við nám um stundarsakir geta, ef þeir óska eftir, fengið niðurfelld félagsgjöld meðan svo er ástatt um þá.

 

Stjórn félagsins

18. gr.

Stjórn félagsins er skipuð þrem mönnum. Hvert ár skal kjósa beinni kosningu varaformann til eins árs. Hann tekur við formennsku næsta ár á eftir, nema um gild forföll sé að ræða, og skal þá kjósa sérstaklega um formann. Fráfarandi formaður situr síðan í stjórn eitt ár til viðbótar eftir að formennsku hans lýkur. Forfallist formaður meðan hann er í embætti skal varaformaður taka sæti hans. Stjórnin skiptir með sér verkum.

Ef hagir stjórnarmanns breytast á meðan hann er í embætti, þannig að hann uppfylli ekki lengur skilyrði til að teljast félagi, skal kjósa mann í hans stað við fyrsta stjórnarkjör á eftir.

 

 

19. gr.

Stjórn félagsins hefur æðsta vald í málefnum félagsins milli félagsfunda.

Stjórn félagsins heldur fundi svo oft sem þurfa þykir. Formaður boðar stjórnarfundi og er honum skylt að verða við óskum sérhvers stjórnarmanns ef hann fer fram á að stjórnarfundur sé haldinn. Formaður stýrir stjórnarfundum. Ritari skráir það, sem á stjórnarfundum gerist, í sérstaka gjörðabók.

Stjórnarfundur er lögmætur ef helmingur stjórnarmanna er mættur á fundinn og formaður eða varaformaður er þar á meðal.

Stjórn félagsins skal sjá um að lögum þessum sé framfylgt. Hún skal fylgjast með störfum og fundarhöldum þeirra nefnda og starfshópa sem starfræktar kunna að verða á vegum félagsins. Auk þess skal stjórnin hafa að öðru leyti vakandi áhuga fyrir hverju því, er félaginu má verða til hagsbóta.

 

Skoðunarmenn ársreikninga

20. gr.

Skoðunarmenn ársreikninga félagsins skulu vera tveir. Þeir skulu kosnir á aðalfundi til eins árs í senn. Stjórnarmenn félagsins eru ekki gjaldgengir í embætti skoðunarmanna ársreikninga.

 

Reikningar félagsins

21. gr.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

Reikningar allra sjóða félagsins skulu yfirfarnir og áritaðir af skoðunarmönnum ársreikninga. Niðurstaða skoðunarmanna skal birt á aðalfundi.

 

22. gr.

Allir sjóðir félagsins skulu vera í vörslu stjórnar og skal hún sjá um að þeir séu ávaxtaðir á tryggan hátt. Um sjóði félagsins skulu samdar reglugerðir og skulu þær samþykktar á aðalfundi og fjallað um þær eins og lög félagsins.

 

Nefndir

23. gr.

Stjórn félagsins er heimilt að skipa nefndir eða starfshópa sem sinna ákveðnum verkefnum fyrir hennar hönd. Hún skal setja þeim markmið sem unnið skal eftir. Nefndir og starfshópar geta ekki tekið skuldbindandi ákvarðanir fyrir hönd félagsins, heldur skulu ákvarðanir þeirra hljóta samþykki stjórnar og/eða félagsfundar eftir því sem við á.

 

Trúnaðarmenn og trúnaðarmannaráð

24. gr.

Trúnaðarmenn eru fulltrúar félagsmanna á sínum vinnustað og ber því að sýna þeim fyllsta trúnað í þeim málum sem upp kunna að koma. Trúnaðarmenn hafa réttindi og skyldur sbr. gildandi landslög.

Innan vébanda félagsins skal starfa trúnaðarmannaráð. Það skal vera vettvangur fyrir upplýsingastreymi á milli stjórnar og almennra félagsmanna. Í trúnaðarmannaráði skal mest sitja einn aðili frá hverjum vinnustað félagsmanna sem valinn skal innan vinnustaðarins.

Formaður og/eða varaformaður félagsins skal sitja fundi trúnaðarmannaráðs.

 

Starfsfólk félagsins

25. gr.

Stjórn félagsins er heimilt að ráða sér framkvæmdastjóra og annað starfsfólk, að því gefnu að fjárhagur félagsins leyfi það. Stjórnin setur framkvæmdastjóra starfsreglur.

 

Skrifstofa félagsins

26. gr.

Stjórn félagsins hefur heimild til að semja við aðila um rekstur skrifstofu fyrir félagið. Rekstur hennar skal fjármagnaður með almennum félagsgjöldum annars vegar og hins vegar með þjónustu við ýmsar nefndir og sjóði félagsins og aðra aðila.

 

Aðild að samtökum

27. gr.

Félagið getur gerst aðili að samtökum. Tillaga um aðild skal hljóta sömu málsmeðferð og lagabreytingar.

Fulltrúar félagsins í stjórnum samtaka sem það er aðili að skulu skipaðir af stjórn.

 

Lagabreytingar

28. gr.

Lögum þessum verður eigi breytt nema á lögmætum aðalfundi. Heimilt er þó á aðalfundi að vísa lagabreytingum til allsherjaratkvæðagreiðslu. Tillaga til lagabreytinga þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða. Tekið skal fram hvenær lagabreyting tekur gildi.

 

Félagsslit

29. gr.

Félaginu verður því aðeins slitið að fyrir liggi samþykki tveggja aðalfunda.

Ef slit eru samþykkt skal halda tvo félagsslitafundi. Fyrri félagsslitafundur skipar 5 manna nefnd sem skila skal tillögum um ráðstöfun eigna og sjóða félagsins. þessar tillögur skulu bornar undir seinni félagsslitafund innan þriggja mánaða frá fyrri félagsslitafundi til samþykktar.

Ef sameina skal félagið öðru félagi, hvort sem um hagsmuna eða fagfélag er að ræða, skal fara eftir lögum um slit á félaginu.