Greinargerð um nám í byggingafræði við Háskólann í Reykjavík

Reykjavík 11.07.2011


Erindi: Í bréfi frá Háskólanum í Reykjavík (HR) frá 2.desember 2010, leitar HR eftir því við stjórn BFÍ að félagið staðfesti BSc próf í byggingafræði frá tækni- og verkfræðideild HR og að námið uppfylli þær kröfur sem félagið gerir til þeirra sem óska eftir að hljóta starfsheitið byggingafræðingur.

 

Menntanefnd BFÍ var valin á aðalfundi félagsins 30.apríl 2011 til þess að fara yfir kennslu HR til byggingafræðináms. Verkefni nefndarinnar var að rýna kennsluaðferðir HR fram til þessa og koma með hugmyndir að mögulegum úrbótum á náminu. Menntanefnd BFÍ hefur fundað reglulega síðan í maí og meðal annars með fulltrúum HR. Einnig hafa nefndarmenn verið viðstaddir lokapróf nemenda í byggingafræði við HR í boði skólans. Hér að neðan eru tillögur menntanefndar BFÍ.

Menntanefnd BFÍ leggur áherslu á að stofnað verði fagráð við HR tengt náminu til byggingafræði. Er það tillaga nefndarinnar að í fagráðinu sitji fullgildir félagar BFÍ og muni stjórn BFÍ tilnefna tvo fulltrúa, HR muni tilnefna tvo fulltrúa og einn fulltrúi tilnefndur frá Stéttarfélagi byggingafræðinga.

Menntanefnd BFÍ leggur áherslu á að nauðsynlegt og eðlilegt sé að við skólann starfi fastráðinn kennari, sem er leiðandi í starfi skólans við uppbyggingu námsins, sem er byggingafræðingur að mennt og hafi mjög víðtæka reynslu í faginu.

Menntanefnd BFÍ leggur áherslu á skiptingu milli hönnunarlínu (design) og framkvæmdalínu (execution) í náminu. Ennfremur að leggja áherslu á fasaskiptinu hverrar línu fyrir sig líkt og tíðkast bæði í náminu í Danmörku og á almennum vinnumarkaði hér á landi.

Menntanefnd BFÍ leggur einnig áherslu á að próf/stöðupróf við skólann verði haldin í lok hverrar annar, t.d fyrir jól og á vorin þar sem nemendur leggja sína heildar verkefnavinnu fyrir kennara og leiðbeinendur (ath. þarf með hefðbundna próftíma í HR í lok anna). Þá leggur nefndin til að það verði haldið stöðumat  samhliða í náminu þar sem kennarar og leiðbeinendur fara yfir verkefnið sem unnið er að hverju sinni. Gerum við það að tillögu okkar að stöðumat verði haldið t.d. eftir hvern fasa og á ákveðnum önnum. Próf/stöðupróf í Danmörku í byggingafræði eru t.d. á 2., 3., 5. og á 7. önn sem er jafnframt lokaverkefnisönn og þá með utanaðkomandi prófdómurum,  sem eru þá byggingafræðingar með víðtæka reynslu og nemendum gefin einkunn eftir þessi próf sem þá endurspeglar árangur annarinnar. Tillaga okkar er einnig sú að BFÍ muni tilnefna ákveðna aðila sem væru fullgildir prófdómarar fyrir hönd félagsins (t.d. 6-8 byggingafræðinga með víðtæka reynslu í faginu).

Menntanefnd BFÍ leggur áherslu á að HR muni leggja mun meiri áherslu á að fagið verði kennt meira í stundarkennslu í stað fjarkennslu. Teljum við að starf byggingafræðinga byggist upp á stórum hluta á mannlegum samskiptum við verkkaupa, hönnuði, yfirvöld og aðra. Ennfremur eru fög innan námsins sem krefjast þess að menn ræði lausnir og túlkun ákveðinna atriða s.s. byggingareglugerðar.

Menntanefnd BFÍ leggur áherslu á mikilvægi þess að námið endurspegli sem best byggingafræðilega þekkingu nemenda. Eðlilegt væri að aukið yrði við verkefnaþekkingu nemenda önn frá önn og þá ávallt tekið fyrir t.d. heilt hús sem aðalverkefni í senn og þá unnið sérstaklega með ákveðna hluta hússins á loka skrefum hverrar annar. Þetta myndi tryggja að nemendur bæti við sig þekkingu jafnt og þétt samhliða framgangi námsins. Þessi aðferð hefur verið notuð í Danmörku í áraraðir með góðum og skilvirkum árangri.

 

Virðingarfyllst

Menntanefnd BFÍ