Athugasemdir með reglum um mat á umsóknum

um leyfi til að nota starfsheitið byggingafræðingur.

 

Almennar athugasemdir.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Byggingafræðingafélag Íslands hafa komið sér saman um þær reglur sem miðað skal við þegar lagt er mat á umsóknir um leyfi til að kalla sig byggingafræðing, sbr. 1.-3. gr. laga nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum. Reglurnar eru settar í samræmi við 2. mgr. 3. gr. laganna, en þar er kveðið á um að fagfélög þeirra starfsgreina sem lögin taka til skuli setja sér reglur um hvaða nám teljist leiða til fullnaðarprófs í viðkomandi starfsgrein. Rétt til að öðlast leyfi hafa þeir sem lokið hafa námi samkvæmt reglunum að mati ráðherra, að fenginni umsögn viðkomandi fagfélags, sem í þessu tilviki er Byggingafræðingafélag Íslands.

 

1. Löggilding starfsheitisins byggingafræðingur – helstu lagaákvæði.

Starfsheitið byggingafræðingur er löggilt starfsheiti, skv. 4. tölul. 1. gr. laga um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, nr. 8/1996.[1] Lögunum er ætlað að tryggja að enginn noti þau starfsheiti sem þar eru talin upp nema hafa lokið fullnaðarprófi í viðkomandi starfsgrein. Það er iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem fer með þennan málaflokk skv. forsetaúrskurði um skiptingu starfa ráðherra nr. 72/2013 og veitir leyfi til að nota starfsheiti þau sem talin eru upp í lögum nr. 8/1996.

 

Í 2. gr. laga nr. 8/1996 er kveðið á það hverjir hafi rétt til nota starfsheitið. Þar segir að rétt til að nota starfsheitið eða orð sem fela í sér starfsheitið hafi þeir menn einir sem fengið hafa til þess leyfi ráðherra, sbr. 3. gr. laganna, eða þeir sem fengið hafa staðfestingu ráðherra á leyfi til að bera samsvarandi starfsheiti sem veitt hefur verið í ríki sem er aðili að samningi um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu ellegar Færeyjum, sbr. 4. gr. laganna.

 

Í 3. gr. laganna er kveðið á um engum megi veita leyfi það er um ræðir í 2. gr. nema hann hafi lokið fullnaðarprófi í viðkomandi starfsgrein. Þar segir einnig að fagfélög þeirra starfsgreina sem lög þessi taka til skuli setja sér reglur um hvaða nám teljist leiða til fullnaðarprófs í viðkomandi starfsgrein. Þær reglur skulu taka gildi þegar þær hafa verið staðfestar af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum. Rétt til að öðlast leyfi hafa þeir sem lokið hafa námi samkvæmt greindum reglum að mati ráðherra að fenginni umsögn viðkomandi fagfélags.

 

Í athugasemdum við þessa grein í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 8/1996 segir að það sé undir ráðherra komið hvenær þessu skilyrði telst fullnægt, en honum beri að leita umsagnar viðkomandi fagfélags áður en ákvörðun er tekin. Tekið er fram að um sé að ræða sömu reglu og sé að finna í þágildandi lögum, nr. 62/1986, að því er flestar starfsstéttir varðar, en nefndarmenn voru sammála um að heppilegast væri að ráðuneytið hefði lokaorðið í þessu sambandi ef ágreiningur risi.

 

 

Samkvæmt 4. gr. laganna skal ráðherra staðfesta leyfi til að bera starfsheiti sem lögin taka til samkvæmt umsókn ríkisborgara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins ef viðkomandi leggur fram vottorð frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sem uppfyllir skilyrði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, sem og viðauka við hana eins og þeir eru á hverjum tíma. Ríkisborgarar aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Færeyingar njóta sama réttar.

 

Í 5. gr. laganna er kveðið á um að ráðherra skeri úr ágreiningi sem rísa kann um notkun starfsheita og samkvæmt 6. gr. skal ráðherra halda skrá um þá sem fengið hafa leyfi til að bera starfsheiti samkvæmt lögunum. Þá er í 8 gr. kveðið á um að brot gegnum lögunum varði sektum.

 

2. Sögulegur bakgrunnur.

Upphaf löggildingar á starfsheitinu byggingafræðingur má rekja allt aftur til ársins 1937 þegar sett voru lög nr. 24/1937 um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara og iðnfræðinga. Skv. lögunum mátti engum veita leyfi til að nota starfsheitið iðnfræðingur nema viðkomandi hefði lokið fullnaðarprófi við tekniskan framhaldsskóla í iðngreininni. M.a. áttu þeir sem luku námi í byggingafræði frá Köbenhavns Bygmesterskole, sem frá 1959 hét bygningskonstruktörskolen og síðar Byggeteknisk Höjskole sem var þriggja og hálfs árs skóli, rétt á því að fá leyfi ráðherra til að kalla sig iðnfræðinga. Löggilding á því starfsheiti var felld niður með lögum nr. 44/1963 og starfsheitið tæknifræðingur tekið upp í staðinn fyrir þá sem lokið höfðu fullnaðarnámi í tæknifræði.

 

Þar sem iðnfræðingsheitið var fallið niður sem lögvarið starfsheiti, nutu þeir sem lokið höfðu prófi í byggingafræði og áður báru iðnfræðingsstarfsheiti, engrar verndar lengur. Til að bregðast við því samþykkti Alþingi árið 1968 að starfsheitið byggingafræðingur (bygningskonstruktör) yrði löggilt starfsheiti, sbr. lög nr. 73/1968, um breyting á lögum nr. 44/1963.

 

Beiðnin um löggildingu starfsheitisins kom frá Byggingafræðingafélagi Íslands, sem þá hafði nýlega verið stofnað, en í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 73/1968 er vísað til þess að niðurfelling á starfsheitinu iðnfræðingur hefði orðið þeim sem lært höfðu byggingafræði til ýmiss konar óþæginda i starfi og gert aðstöðu þeirra, t. d. til að öðlast viðurkenningu byggingarnefnda, lakari en ella.[2]

 

Í frumvarpinu segir orðrétt: „[…] menntunarheiti það, sem teknikum-skóli veitir á Norðurlöndum er "ingeniör", en "konstruktör" hjá þeim, sem lokið hafa prófi frá frá byggingafræðiskólanum. Við athugun á námi þessara tveggja hópa sýnist aðallega vera um þann mun að ræða, að "konstruktör" stendur nær arkitekts- en verkfræðingsstarfinu, en "ingeniör" öfugt.“[3]

 

Í lögunum er kveðið á um að engum megi „veita leyfi það, sem um ræðir í 7. gr., nema hann hafi lokið fullnaðarprófi i byggingafræði frá byggingafræðilegum æðri skóla, sem Byggingafræðingafélag Íslands viðurkennir sem fullgildan skóla í þeirri grein. Þeir menn, sem fullnægja skilyrðum þeim, sem sett eru i 1. mgr. þessarar greinar, eiga rétt á, að þeim sé veitt leyfi til að kalla sig byggingafræðinga.“

 

Árið 1996 voru sett ný heildarlög um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, nr. 8/1996, og eru þau lög enn í gildi. Samkvæmt 4. tölul. 1. gr. laganna er starfsheitið byggingafræðingur löggilt starfsheiti. Þessi lögverndun þykir mikilvæg til að tryggja gæði og öryggi í mannvirkjagerð hér á landi.

 

3. Löggilding byggingafræðinga skv. byggingarlögum og lögum um mannvirki.

Árið 1983 var fyrstu byggingafræðingunum veitt löggilding til að árita aðaluppdrætti samkvæmt byggingarlögum 54/1978. Fram að því höfðu arkitektar staðið einir að þeim réttindum. Deilur stóðu um nokkurra ára skeið milli arkitekta og byggingarfræðinga vegna þessa. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 49/1986 staðfesti rétturinn endanlega rétt byggingafræðinga til að árita aðal- og séruppdrætti mannvirkja. Enginn vafi eru um þessa heimild í dag og samkvæmt a. lið, 1. mgr. 25. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki geta arkitektar og byggingarfræðingar fengið löggildingu til að gera aðaluppdrætti, uppdrætti að skipulagi lóða og tilheyrandi deiliuppdrætti.

 

Þá geta byggingafræðingar verið skoðunarmenn byggingarfulltrúa, Mannvirkjastofnunar eða skoðunarstofa. Byggingarfræðingar með a.m.k. tveggja ára reynslu sem slíkir af störfum við byggingarframkvæmdir eða byggingareftirlit sem Mannvirkjastofnun viðurkennir geta verið skoðunarmenn I og byggingarfræðingar með löggildingu Mannvirkjastofnunar sem hönnuðir aðal- eða séruppdrátta og a.m.k. þriggja ára reynslu sem löggiltir hönnuðir af störfum við byggingarframkvæmdir, hönnun mannvirkja, byggingareftirlit eða verkstjórn við byggingarframkvæmdir geta verið skoðunarmenn II, sbr. 21. gr. laga um mannvirki, nr. 160/2010.

 

Loks geta byggingarfræðingar öðlast starfsleyfi sem byggingastjórar til þess að hafa umsjón með framkvæmdum sem falla undir 1. og 3. tölul. 4. mgr. 27. gr. laga um mannvirki. Skulu þeir hafa a.m.k. fimm ára reynslu sem slíkir af störfum við byggingarframkvæmdir, hönnun bygginga, byggingareftirlit eða verkstjórn við byggingarframkvæmdir.

 

 

 

 

 

4. Byggingafræðingafélag Íslands og starfsemi þess.

Byggingafræðingafélag Íslands er lögbundinn umsagnaraðili um umsóknir um leyfi til að kalla sig byggingafræðing, sbr. ákvæði 3. gr. laga um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, nr. 8/1996 og athugasemd við þá grein í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 8/1996.

 

Byggingafræðingafélag Íslands var stofnað árið 1968 af 19 byggingafræðingum sem allir höfðu lokið námi í byggingafræði í Danmörku. Líkt og önnur fagfélög hér á landi er BFÍ hagsmunafélag sem vinnur að bættum kjörum starfsstéttarinnar auk þess að efla og bæta gæði mannvirkjagerðar hér á landi. Í 2. gr. laga félagsins er að finna yfirlýst markmið þess:

 

Markmið félagsins er að efla og bæta allt er snýr að mannvirkjagerð og umhverfi þeirra. Markmið félagsins er einnig að gæta hagsmuna byggingafræðinga á Íslandi, efla samstarf þeirra, kynningu félagsins út á við og stuðla að aukinni fræðslu félagsmanna. Til að ná markmiðum sínum skal félagið taka virkan þátt í opinberri stefnumótun, umræðu um laga- og reglugerðarsmíð og kynningu nýjunga á sviði umhverfis- og mannvirkjagerðar. Þá skal einnig stefnt að því að koma á almennum fræðslufundum. 

 

Á síðustu misserum hefur félagið staðið fyrir umræðu- og kynningarfundum um ýmis málefni sem snerta hagsmuni byggingafræðinga á einhvern hátt, t.d. um breytingar á byggingareglugerð og innleiðingu gæðakerfa hönnuða og byggingastjóra. Félagið tekur virkan þátt í opinberri stefnumótum, s.s. þróun leiðbeininga við byggingarreglugerð og skoðunarhandbóka vegna aðaluppdrátta. Þar að auki stóð félagið í samstarfi við Stéttafélag byggingafræðinga (SFB) að gerð kjarakönnunar og gaf um svipað leyti út greinargóðan kynningarbækling um starfsstéttina. Hvoru tveggja hefur verið gert aðgengilegt á heimasíðu félagsins, www.bfi.is en þar má einnig finna fréttir um starfsemi félagsins sem og ýmislegt annað sem viðkemur byggingafræðingum á einn eða annan hátt. Hið sama á við um Fésbókarsíðu félagsins en hún þykir einnig góður vettvangur fyrir samskipti byggingafræðinga sín á milli.

 

Samkvæmt lögum Byggingafræðingafélagsins skal aðalfundur haldinn fyrir þann 1. maí ár hvert, en þar er m.a. formlega skipuð stjórn næsta starfsárs. Í stjórn sitja fimm aðilar auk tveggja varamanna og framkvæmdastjóra sem stýrir fundum og sinnir flestum almennum verkefnum. Stjórnarfundir eru haldnir mánaðarlega en venja er að leggja niður starfsemi í 2-3 mánuði yfir sumartímann. Formlegir stjórnarfundir eru því um 9-10 á ári.

 

Virkir félagsmenn sem búsettir eru á Íslandi, voru alls 356 manns í ársbyrjun 2015. Á sama tíma höfðu um 400 manns hlotið löggildingu starfsheitisins byggingafræðingur og er lista yfir þá aðila að finna á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, á vefslóðinni:

www.atvinnuvegaraduneyti.is/verkefni/leyfisveitingar/nafnalistar/nr/6688.

 

 

5. Nám í byggingafræði.

Á fjórða áratugi síðustu aldar var fyrst farið að útskrifa byggingafræðinga (bygningskonstruktør) í Danmörku, að loknu 2½ árs námi en upp úr 1960 urðu til svokallaðir byggingafræðiskólar og var námið lengt í 3½ ár. Þessi nýja námsbraut hafði þróast út frá kröfu byggingariðnaðarins sem kallaði á aukinn skilning og auðveldari samskipti á milli hönnuða annars vegar og iðnaðarmanna hins vegar. Starfsgreinin hefur síðan þróast samhliða breyttum kröfum byggingaiðnaðarins og í dag er námið fjölbreytt og spannar breiðara svið en flest önnur nám innan byggingageirans. Í fyrstu var gerð krafa um að byggingafræðingar væru jafnframt menntaðir iðnaðarmenn en stuttu eftir aldarmótin 2000 var inntökuskilyrðunum breytt og nú veitir stúdentspróf jafnan inngöngurétt í námið, svo og próf í tækniteiknun. Sá háttur er þó enn hafður á að nemandi með iðnmenntun á byggingarsviði öðlast sjálfkrafa réttindi til meistarabréfs í viðkomandi iðngrein að loknu námi í byggingafræði.

 

Íslendingar hafa löngum sótt byggingafræðinám til Danmerkur en í dag er það í boði hjá eftirtöldum menntastofnunum: Erhvervsakademi Sjælland (EASJ), Næstved; Københavns Erhvervsakademi (KEA), Kaupmannahöfn; Erhvervsakademiet Lillebælt (EAL)‚ Óðinsvéum; Erhvervsakademi SydVest (EASV), Esbjerg; Erhvervsakademi Aarhus (EAAA), Árósum (sameinast VIA 2016); University College Nordjylland (UCN), Álaborg og VIA University College (VIAUC), Horsens/Árósum/Holsterbro. Námið í Danmörku telur í heildina 210 ECTS einingar og lýkur með námsgráðu sem á dönsku nefnist „Professionsbachelor i bygningskonstruktion“.

 

Nýlega var að danskri fyrirmynd sniðin námsskrá fyrir námsbraut í byggingafræði í Háskólanum í Reykjavík. Náminu er þar skipt í tvo hluta, annars vegar 90 ECTS eininga námsbraut í byggingariðnfræði og hins vegar 120 ECTS eininga verkefnamiðað viðbótarnám.

 

Byggingafræðinám er fjölbreytt og hagnýtt nám. Það telur í heildina 210 ECTS einingar og lýkur með BSc gráðu í Háskólanum í Reykjavík og námsgráðunni „Professionsbachelor i bygningskonstruktion“ í Dannmörku. Meginmarkmið námsins er að nemendur verði færir um að sinna fjölbreytilegum störfum í byggingaiðnaði og atvinnulífi og þá sérstaklega sem fagaðilar milli byggingahönnuða og framkvæmdaraðila. Í náminu er lögð áhersla á framsæknar, tölvustuddar aðferðir við hönnun og að nemendur vinni raunhæf og hagnýt verkefni undir leiðsögn kennara með mikla faglega reynslu. Námið byggist að miklu leyti á hópavinnu og vinna nemendur þverfagleg verkefni sem tengja flesta þætti námsins. Þeir fá góða þjálfun í að miðla þekkingu sinni áfram á skýran og skilvirkan hátt. Starfsnám er mikilvægur þáttur í náminu, en það undirbýr nemendur vel fyrir kröfur vinnumarkaðarins. Að námi loknu ætti viðkomandi að þekkja ferli hönnunar og framkvæmdar mannvirkja og geta skipulagt, stjórnað og sinnt verkefnum innan þess sviðs sjálfstætt og í samstarfi við aðra.

 

Helstu námsgreinar og efnisþættir sem vikið er að í náminu eru:

·         Hagnýt eðlis- og efnafræði byggingarefna, burðarþol mannvirkja.

·         Landmælingar og jarðtækni.

·         Hönnun, viðgerðir og viðhald mannvirkja, brunaþol, hljóðvist, aðgengismál.

·         Hitunarfræði og lagnir, loftræsing, orkurammi bygginga.

·         Vistvæn hönnun og orkunýting.

·         Fyrirtækjarekstur, stjórnsýsla, lögfræði.

·         Framleiðsla, skipulag á byggingasvæði, verkefnisstjórnun, eftirlit.

·         Gerð tíma-, fjárhags- og rekstraráætlana, verksamningar, útboð byggingaverkefna.

 

 

6. Umsóknir um löggildingu starfsheitisins byggingafræðingur: Verklagsreglur.

Stjórn Byggingafræðingafélags hefur sett eftirfarandi verklagsreglur varðandi afgreiðslu beiðna frá ráðuneytinu um umsagnir varðandi umsóknir um leyfi til að nota starfsheitið byggingafræðingur

·         Beiðni um umsögn varðandi umsókn um leyfi til að nota starfsheitið byggingafræðingur berst frá ráðuneyti, ásamt nauðsynlegum fylgigögnum. Með nauðsynlegum fylgigögnum er átt við yfirlit yfir námsferil þar sem fram koma einkunnir og námsgreinar sem viðkomandi hefur lokið, svo og frumrit eða staðfest ljósrit af prófskírteinum. Ef fylgigögn eru ófullnægjandi eða umsókn að öðru leyti ábótavant skal fulltrúi stjórnar Byggingarfræðingafélags Íslands upplýsa ráðuneytið um það hið fyrsta og útskýra hvaða gögn vanti svo gefa megi umsögn.

·         Framkvæmdastjóri Byggingarfræðingafélag Íslands (eða annar kjörinn fulltrúi stjórnar) fer yfir umsóknir sem berast og sendir jákvæðar umsagnir til baka sýni fylgigögn með ótvíræðum hætti fram á að umsækjandi hafi lokið prófi í viðeigandi námi frá skóla sem félagið þekkir og viðurkennir, en upptalningu á þeim skólum er að finna í reglunum. Í umsögninni skulu koma fram upplýsingar um nám umsækjanda og að um sé að ræða viðurkennt nám skv. reglunum.

·         Hafi umsækjandi lokið námi frá skóla sem félagið þekkir ekki er umsóknin tekin sérstaklega fyrir á næsta stjórnarfundi. Stjórn félagsins fer í sameiningu yfir umsókn og fylgigögn hennar og greinir hvort viðkomandi uppfylli þau skilyrði sem sett eru fram í reglunum um mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig byggingafræðing, er mæla á um námslengd, fjölda ECTS eininga og undirstöðugreinar.

·         Ef stjórnin samþykkir að umsækjandi teljist uppfylla þau skilyrði sem sett eru fram í reglunum um mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig byggingafræðing tilkynnir framkvæmdastjóri félagsins (eða annar kjörinn fulltrúi stjórnar) ráðuneytinu að félagið mæli með því að viðkomandi skuli fá leyfi til að nota starfsheitið byggingafræðingur. Í umsögninni skulu koma fram upplýsingar um nám umsækjanda.

·         Ef stjórnin telur að umsækjandi uppfylli ekki þessar kröfur er sú ákvörðun rökstudd ítarlega og framkvæmdastjóri (eða annar kjörinn fulltrúi stjórnar) sendir ráðuneytinu formlegt bréf þar sem farið er yfir rökstuðning stjórnarinnar og mælt með því að umsókninni verði hafnað.

·         Leitast er við að svara öllum umsagnarbeiðnum frá ráðuneytinu innan tveggja mánaða frá móttöku þeirra.

·         Formaður stjórnar eða framkvæmdastjóri skal tilkynna ráðuneytinu með formlegum hætti ef annar kjörinn fulltrúi stjórnar tekur við skyldum framkvæmdastjóra varðandi mat á námi og samskipti við ráðuneytið, sbr. 4. gr. reglnanna.

 

Athugasemdir við einstakar greinar reglnanna.

 

 

Um 1. gr.

Í greininni er kveðið á um gildissvið reglnanna og umsagnaraðila, en eins og fram kemur í almennum athugasemdum er Byggingafræðingafélag Íslands lögbundinn umsagnaraðili um umsóknir um leyfi til að kalla sig byggingafræðing, sbr. ákvæði 3. gr. laga um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, nr. 8/1996 og athugasemd við þá grein í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 8/1996.

 

Um 2. gr.

Í greininni er fjallað um það hvernig sækja skulu um leyfi til að nota starfsheitið og þau gögn sem þurfa að fylgja með umsókn um leyfi. Það er iðnaðar- og viðskiptaráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með þennan málaflokk í dag skv. forsetaúrskurði um skiptingu starfa ráðherra nr. 72/2013 og veitir leyfi til að nota starfsheiti þau sem talin eru upp í lögum nr. 8/1996. Sækja skal um leyfi á sérstöku umsóknareyðublaði sem er að finna á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, www.anr.is. Umsóknareyðublaðið er einnig að finna á vefsíðunni www.island.is. Með umsókninni þurfa að fylgja yfirlit yfir námsferil (námsgreinar og einkunnir) og frumrit af prófskírteini eða staðfest ljósrit frá sýslumanni eða viðkomandi skóla.

 

 

Um 3. gr.

Í greininni er fjallað um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að fá leyfi til að nota starfsheitið byggingafræðingur. Sjá einnig umfjöllun um nám í byggingafræði í 5. hluta almennra athugasemda.

 

Um 4. gr.

Í greininni er fjallað um umsagnarbeiðir frá ráðuneytinu og verklagsreglur Byggingafræðingafélag Íslands við mat á þeim umsóknum sem félaginu berast. Sjá einnig umfjöllun um verklagsreglur í 6. hluta almennra athugasemda. Í 4. gr. er einnig að finna lista yfir námsgráður og skóla sem félagið þekkir og viðurkennir.

 

Um 5. gr.

Greinin þarfnast ekki skýringa.

 

Um 6. gr.

Í greininni er fjallað um lagagrundvöll reglnanna og gildistöku.

 [1] Lögin er að finna á heimasíðu Alþingis, á vefslóðinni: www.althingi.is/lagas/nuna/1996008.html

[2] Umfjöllun um sögulegan bakgrunn byggist m.a. á upplýsingum sem er að finna í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 73/1968. Frumvarpið má finna á heimasíðu Alþingis: www.althingi.is/altext/88/s/pdf/0269.pdf

[3] Frumvarpið er að finna á vefslóðinni: www.althingi.is/altext/88/s/pdf/0269.pdf